Verkstæði Jólasveinsins, jólagjafavinna tveggja elstu árganga leikskólans

Fyrir jól er opnað verkstæði jólasveinsins í Akraseli en verkstæðið er notað undir jólagjafavinnu eldri nemenda (tveir elstu árgangarnir) í ár eru það 2017 og 2018 börnin sem fara á verkstæðið. Þar fær nemandinn frjálsar hendur með efnivið og hugmyndaflug fær að ráða. Hálfum sal skólans er breytt í listasmiðju með fjársjóði af efnivið í hinar ýmsu gjafir. Byrjað er að taka viðtal við barnið sem segir hvað það vilji gera og gefa foreldrum/foreldri sínu. Í ár komu fullt af flottum hugmyndum að gjöf til foreldra. Hvert barn fer síðan með kennara inn í sal og þar fær barnið að ganga um og skoða allan efniviðinn sem þar er. Barnið velur síðan efnivið sem það ætlar að nota í jólagjöfina. Þessi vinna hefur gengið mjög vel og margar skemmtilegar jólagjafir þegar tilbúnar. Þetta er einstakt tækifæri fyrir kennara og börn til að vinna náið saman og styrkja tengslin sín á milli. Allt ferlið við framkvæmd jólagjafarinnar er skráð, allt frá hugmynd til loka. En í þessari vinnu er eitt barn með sínum kennara inni í sal og eru þetta miklar gæðastundir fyrir okkur kennarana sem og fyrir barnið.

Hérna fyrir neðan má sjá myndir af þeim efnivið sem unnið er með. Við munum svo segja meira frá þessari vinnu eftir jól.