Móttaka sjötta Grænfána Landverndar og staðfesting þess efnis að Akrasel er viðurkenndur UNESCO leikskóli sá fyrsti á Íslandi.

Móttaka sjötta Grænfána Landverndar og staðfesting þess efnis að Akrasel er viðurkenndur UNESCO leikskóli sá fyrsti á Íslandi.

Á sumarhátíð Akrasels þann 25. maí næstkomandi, þar sem við bjóðum börnum og foreldrum í opið hús frá kl. 14.00-16.00 mun afhending fara fram. Hr. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri munu koma í Akrasel og taka þátt í athöfninni með okkur.

Aðeins um UNESCO

UNESCO hefur starfrækt samstarfsnet skóla á alþjóðavísu frá árinu 1953 undir nafninu UNESCO Associated schools project network (ASPnet). Þeir eru nú um 10.000 talsins og starfa í 181 landi. Skólarnir eru á leik-, grunn– og framhaldsskólastigi og vinna allir að sameiginlegu markmiði sem er að stuðla að friði.

UNESCO-skólar innleiða áherslur UNESCO í kennslu og leik. Þessar áherslur eru heimsborgaravitund, friður, fjölmenning, sjálfbær þróun og gæða menntun. UNESCO-skólar hafa einstakt tækifæri til að tengjast öðrum UNESCO-skólum um allan heim og taka þátt í fjölþjóðlegum verkefnum.

UNESCO–verkefni auka fjölbreytni í kennsluaðferðum og þekkingu nemenda á málefnum Sameinuðu þjóðanna og heimsmarkmiðunum. Verkefnin eru þverfagleg og geta því nýst í ýmsum kennslutímum. Þau passa vel inn í grunnþætti aðalnámskráa leik- grunn- og framhaldsskóla og hafa mikið hagnýtt gildi.

Stjórnvöld halda úti heimsíðunni www.heimsmarkmidin.is og þar má nálgast til dæmis þau forgangsmarkmið sem þau hafa sett sér þegar kemur að Heimsmarkmiðunum ásamt upplýsingum um þau verkefni sem þau eru að vinna við.

Akrasel hefur unnið á grænni grein (Landvernd) frá opnun 2008 og er nú að taka við sjötta grænfánanum. Grænfána vinnan / umhverfismenntin okkar í Akraseli er grunnurinn að öllu okkar starfi. Síðustu ár höfum við verið að tengja Heimsmarkmið Sameinuðuþjóðanna við starfið okkar og kynnt Barnasáttmálann fyrir elsta árgangi leikskólans.

Á kynningu sem haldin var fyrir starfsfólk Akrasels um Heimsmarkmiðin kom fram ábending um að við værum að vinna í anda UNESCO skóla, viðkomandi lagði til að við myndum sækja um aðild, sem við gerðum haustið 2019. Covid tafði afgreiðslu.

Staðfesting barst í desember 2021 um að við værum viðurkenndur UNESCO leikskóli.

Á miðvikudaginn 25. maí tökum við formlega við viðurkenningunni og sjötta grænfánanum.

Við erum full af þakklæti og stolti yfir þessari nafnbót. .