September á Bergi

Það sem september byrjaði vel, sól og hiti dag eftir dag og við höfum heldur betur nýtt þessa sólardaga vel í útiveru.

Núna er skipulagða starfið komið á fullt og eru börnin komin í hópa fyrir jóga, Lubba, ævintýraferðir (2018) 2019 fer allur saman í gönguferð/ævintýraferðir, myndlist/myndsköpun á sér stað vikulega. Frjáls leikur og útivera spila stórt hlutverk í okkar starfi.

Börnin hafa sjálf kosið nafn á árgangana sína.

2019 árgangurin heitir Mýslurnar 

2018 árgangurinn eru Fílarnir

Skipulagt starf:

Hjá okkur er skipulagt starf og frjáls leikur í góðu jafnvægi 2019 börnin fara í gönguferðir/ævintýraferðir með jafnöldrum sínum á Gljúfri, Lubba, Jóga og Myndsköpun. Við gefum frjálsa leiknum líka mikinn tíma og rými því börnin læra gífurlega mikið í gegnum leikinn má þar t.d. nefna félagsfærni (samskipti, tjáning og að deila leikföngum með öðrum).

2018 hópurinn fer í ævintýraferðir með Kletti og Gljúfri í viku hverri. Á þriðjudögum er síðan stöðvavinna með jafnöldrum sínum á Gljúfri og þá fara börnin í myndsköpun, jóga og stærðfræði/spil. Fílahópurinn fer líka í Lubbastundir. Eins og með 2019 hópinn þá er líka mikið um frjálsan leik og hann mjög mikilvægur í þroska barna.

Ævintýraferðir:

2018 árgangurinn fer í ævintýraferð í hverri viku. Barnahópnum er skipt í þrjá hópa sem fara í ferð einu sinni í viku. Miðvikudaga, fimmtudaga og föstudaga, við förum í þessar ferðir með 2018 hóp frá Gljúfri og 2017 hóp frá Klett.

Útikennsla spilar stórt hlutverk í ævintýraferðum tveggja elstu árganga leikskólans. Við förum frá leikskólanum milli kl. 09.30 og 10.00 og komum heim milli kl. 13.00 og 13.30.

 

   

Gönguferðir: 2019 árgangurinnfer í gönguferðir einu sinni í viku á þriðjudagsmorgnum með Gljúfri.

 

   

   

 

  Alþjóðavika

Í tilefni af alþjóðaviku í Akraseli 19. - 24. sept. hófum við verkefni með börnunum sem við köllum ,,Heimurinn og ég“

Börn og starfsfólk á Bergi tengjast níu fánum og má segja að við séum nokkuð alþjóðleg deild.

Við höfum tengingar við:

  • Danmörk
  • Færeyjar
  • Írak
  • Ísland
  • Kúrdistan
  • Noreg
  • Pólland
  • Ungverjaland
  • Þýskaland

Krakkarnir eru að læra að þekkja fánana við þessi lönd og hvar í heiminum þau eru. Þau gerðu í sameiningu heiminn sem búin var til úr bylgjupappír og límdu afklippur á heiminn í bláum, brúnum og hvítum blöðum eftir fyrirmælum kennara. Fánar landanna okkar voru svo límdir á heiminn. Í samveru fórum við svo yfir tvo þætti úr barnasáttmálanum: Að allir eiga sér nafn og ríkisfang (sem við útskýrðum sem fána eða land) og að við getum átt mismunandi tungumál en samt verið vinir. Þessi vinna er alls ekki búin því við eigum eftir að tengja þetta verkefni við önnur verkefni í vetur og tengja fleiri þætti barnasáttmálans við verkefnið.

Við höfum verið svo heppin að hafa áhugasama foreldra sem hafa komið með búninga frá Kúrdistan og sendu okkur að auki slóð af mjög vinsælu lagi sem við leyfðum krökkunum að heyra. Ef það leynast fleiri foreldrar í hópnum sem luma á einhverju skemmtilegu í tengslum við þetta verkefni að þá væri gaman að heyra frá ykkur.

Við höfum fengið til liðs við okkur foreldra og kennara sem ætla að lesa fyrir okkur bækur eða sögur á þessum tungumálum og hafa krakkarnir hlustað á Gullbrá og birnirnir þrír á íslensku, þýsku og norsku. Hægt og rólega munu börnin fá að heyra öll sögur á þeim tungumálum sem tengjast deildinni.

Í vetur ætlum við að halda áfram að vinna með verkefnið ,,Heimurinn og ég" og tengja það betur við barnasáttmálann, vináttuverkefnið Blæ o.fl.

 

 

Umhverfismennt:

Á Akrasel erum við með moltuorma sem við gefum að borða matarafganga einu sinni í viku. Fyrstu vikuna í september þá fórum við í það að skipta upp ormunum. Þá búum við til litla hauga og látum þá bíða ofan á svörtum ruslapoka í klukkutíma eða tvo. Síðan hreinsum við ormana frá og setjum í sér dollu og moldin góða fer í annan dall. Börnin á deildinni tóku flest öll virkan þátt. Sumum fannst best að sitja bara og fylgjast með meðan önnur fóru á fullt að týna. Sögur voru búnar til og mikið spjallað og pælt í af hverju ormarnir dróu sig oftast aftur inn í moldina, af hverju sumir voru stórir meðan aðrir voru pínu litlir. Svo urðu til ýmsar sögur um ormana, börnin fóru í leikskólann og mamman og pabbinn í vinnuna. 

 

Við tæmum flokkunarkassana sem er inni á deild reglulega og fáum í lið með okkur nokkra sjálfboðaliða. Nokkur börn buðu sig fram og báru kassana út og hjálpuðust að við að henda úr flokkunarkössunum í endurvinnslutunnuna. Þeim þótti þetta ekki leiðinlegt, skein bros frá hverju barni og þau voru ekkert smá dugleg að hjálpast að. 

 

Frjáls leikur inni og úti

 

 

 

   

 

 

Enn fleiri myndir frá starfinu á Bergi í september er hægt að skoða hér og hér