Janúar 2023

Í janúar byrjuðum við rólega fyrstu tvær vikurnar eftir jólafrí og fékk leikurinn góðan tíma bæði inni og úti. Krakkarnir sóttu t.a.m. snjó út til þess að fylgjast með honum bráðna og prófuðu einnig að lita hann með matarlit sem þau spreyjuðu á með spreybrúsa. Reglulega skemmtilegar umræður mynduðust á milla barnanna í þessari tilraun.

  +

  

Skipulagt starf:

Smá breytingar hafa orðið á skipulagða starfinu og ákváðum við að hafa stöðvavinnu fyrir 2019 árganginn líka með Gljúfri. Hófst sú vinna af fullum krafti mánudaginn 9.janúar með þremur stöðvum sem eru: Lubbi, myndsköpun og jóga.

Á meðan 2019 árgangurinn er í stöðvavinnu þá ákváðum við að prófa að hafa stelpu og strákadaga með Gljúfri. Við förum ýmist í göngutúra eða erum í frjálsum leik inni á Gljúfri. Eina vikuna eru stelpur í göngu/strákar í leik á Gljúfri og svo vikuna eftir fara strákar í göngu/stelpur í leik á Gljúfri.

Á þriðjudögum fer svo 2018 árgangurinn í stöðvavinnu með Gljúfri og fara þau í jóga, stærðfræði og myndsköpun en á meðan þetta starf er í gangi fara Pöndu- og músahópur (2019 árg.) í sína ævintýraferð.

Við höfum einnig þurft að breyta tímasetningu í Lubbavinnu hjá 2018 árganginum og erum við enn að fikra okkur áfram með að sjá bestu leiðina í þeim efnum en eins og staðan er núna að þá fara tveir hópar eftir hádegi á mánudögum og einn hópur á fimmtudagsmorgni.

Með þessu samstarfi á milli deilda hafa krakkarnir öðlast frekari kynni við önnur börn og starfsfólk. Þau eru farin að óska oftar eftir því að fara í heimsóknir á aðrar deildar og við fáum gjarnan heimsóknir líka sem við fögnum. Þetta gefur okkur svo ótrúlega möguleika á að kynnast innbyrðis og verður því vinaval barnanna stærra og fjölbreyttara fyrir vikið.

    

Leikur inni

Í janúar höfum við verið dugleg að leika úti þegar veður leyfir. Sem betur fer hafa ekki verið margir dagar þar sem við höfum ekki komist út alla vega í smá stund. En þá höfum við notað salinn til að fá útrás og losa orku.

Það er mjög gaman að sjá hve mikið þroskastökk börnin taka á nýju ári. Leikurinn þeirra er sífellt að þróast og er gaman að sjá hve þau eru öll orðin dugleg að leika saman í lengri eða skemmri tíma. Vinátta og virðing eru meðal annars atriði sem við vinnum með þeim í gegnum leikinn ásamt því að aðstoða og leiðbeina þeim með samskipti en allt þetta eru atriði sem við vinnum og kennum þeim í gegnum leikinn.

 

 

 

 

 

Föndrað fyrir þrettándann

Bóndadagurinn:

Bóndadagurinn var haldinn og loksins gátum við boðið öllum karlmönnum í lífi barnanna í morgunkaffi á leikskólanum. Það var mikil stemning og mjög gaman að sjá hve margir sáu sér fært að mæta. Þiggja kaffi og skoða sýninguna sem við settum upp í tilefni dagsins. Stelpurnar föndruðu svo bóndadagsgjöf handa drengjunum á Bergi. Haldinn var fundur með stelpunum í 2019 árganginum og fengu þær að ákveða sjálfar hvað þær vildu gefa strákunum. Meirihlutinn vildi gera hálsmen handa strákunum.

Stelpurnar í 2018 árgangingum gerðu það sama, það var fundað með þeim og ákváðu þær að gera bindi handa strákunum og skreyta.

Þorrinn:

Við kennaranir höfðum samband við Byggðasafnið að Görðum og vildum athuga hvort það væri möguleiki á að fá ýmislegt í kassa sem tengdist þorranum. Það var nú ekki vandamálið og kom hann Jón með ýmislegt í kassa til okkar. Við settumst við borð með kassann opinn og leyfðum krökkunum að skoða innihaldið og fræddum þau í leiðinni um gripina sem voru í kassanum. Þeim fannst þetta allt mjög spennandi og spurðu heilmikið um innihaldið. Í skipulögðu starfi hjá 2018 árganginum á Bergi og Gljúfri fengu börnin að þæfa ull sem gekk glimrandi vel hjá þeim.

Rafmagnslausi dagurinn:

Föstudaginn 28. janúar héldum við upp á rafmagnslausadaginn í Akraseli. Það var mikil spenna hjá börnunum að koma inn í leikskólann með vasaljósin sín þar sem myrkrið tók á móti þeim. Leikurinn var allsráðandi þennan dag og voru börnin sniðug að nýta vasaljósið sér til hags í leiknum. Um morguninn var jafnframt farið í söngsal þar sem allar deildir leikskólans hittust og sungu saman við kerta kósýheit. Í lok söngsalarins voru afmælisbörn janúarmánaðar kölluð upp og afmælissöngurinn sunginn fyrir þau. Okkur fannst þetta vera notaleg stund í myrkruðum sal við smá kertaljós.

 

Útivera:

 

 

Ævintýraferðir:

2018: Í annarri viku í janúar voru fyrstu ævintýraferðir ársins 2023 farnar með tilheyrandi spenningi barnanna enda elska þau flest að fara í skógræktina að leika. Það var allt frekar frjálst og afslappað í skógræktinni og börnin veittu góða aðstoð við að gefa litlu fuglunum mat og hjálpuðust að við að hengja upp fóðurkúlur á trén sem við vorum búin að búa til fyrir ferðina. Eftir fyrstu ferðina í skógræktina voru ferðirnar aðeins öðruvísi það sem eftir var af janúar. Við náðum að fara með einn hóp í skógræktina en síðan höfum við farið í gönguferð á ný svæði. Klósettin í skógræktinni hafa verið læst vegna skemmda núna í janúar. Farið var að byggðasafninu og þar var leikið og rennt sér. gengið að Akraneshöllinni og farið inn að leika. Börnunum fannst þetta æði og okkur kennurunum líka.

 

 

 

 2019: Músahópurinn hefur verið duglegur að fara í ævintýraferðir um nærumhverfið. Þau hafa verið að fara í göngutúra með Pöndum á Gljúfri. Þau fóru í gönguferð að nýja Garðasel og fengu að leika sér á útisvæðinu þar í dágóða stund við mikla gleði. Gengið var að gamla Garðasel og leikið þar ásamt leiksvæðinu við Grundaskóla. Mikka hól (hóll sem er rétt hjá skógræktinni) með rassaþotur í fararteskinu var heimsóttur og þar renndu þau sér og höfðum gaman.

 

Enn fleiri myndir er hægt að skoða hérna fyrir neðan. 

Fyrstu tvær vikur janúar hér

og seinni tvær vikur janúar hér