Desember 2022

Desember leið mjög hratt að okkar mati, mikið um að vera þrátt fyrir að hefðbundið starf hafi fengið að víkja fyrir öðru skemmtilegu. Við ákváðum samt að halda jóganu inni fyrstu tvær vikurnar eða svo. Við fórum út alla dagana en þá daga sem frostið beit hvað mest að þá var útiveran stutt. Börnin hafa notið sín í jólaföndri, leik og söng og hlustað mikið á jólalög í allann desembermánuð.

 

Gunnsi jólaálfur

Mikil spenna var hjá stórum hóp barnanna á Bergi að finna hann Gunnsa þegar þau mættu á morgnanna til að sjá hvað hann hefur verið að gera af sér nóttina áður. Gunnsi var bara nokkuð þægur en uppátækjasamur, hann t.d. las bók fyrir nokkur tuskudýr, bauð krökkunum upp á diskó ball, pakkaði inn kennarastól við mikinn fögnuð og hlátur barnanna, hann dreifði líka klósettpappír út um allt baðherbergið ásamt því að teikna og skrifa skilaboð til barnanna á spegilinn og svo mikið annað en allt til að gleðja börnin þangað til að jólasveinarnir mættu í bæinn en þá fór Gunnsi jólaálfur heim í álfheima en ekki án þess að skrifa kveðjubréf til barnanna.

 

 

Opið hús/aðventustund: Það var mikill spenningur á Bergi þriðjudaginn 6. desember þegar börnin voru að bíða eftir því að fá að syngja fyrir ykkur. Þau voru búin að æfa nokkur jólalög sem þau völdu sjálf að syngja á opna húsinu. Eins og þið sáuð þá stóðu þau sig svo vel og var frábært að sjá alla þá foreldra sem sáu sig fært um að koma og njóta stundarinnar með börnunum sínum. Það er eiginlega ekki hægt að tala um þessa stund án þess að minnast á smákökurnar en börnin voru mjög stolt af þeirri afurð enda mjög góðar kökur að okkar mati. Þetta var í fyrsta sinn sem börnin ykkar gátu boðið foreldrum sínum á svona viðburð og hlökkum við mikið til þess að fá fleiri svona stundir með ykkur. Við þökkum ykkur því kærlega fyrir komuna og fyrir að gera þessa stund svo eftirminnilega fyrir börnin.

Rauður dagur: Í Akraseli var rauður dagur 16. desember og okkur þótti einstaklega skemmtilegt að taka á móti þeim þennan dag því börnin komu svo fallega inn á deild með fallega og bjarta brosið sitt. Venjan síðustu ár hefur verið þannig að öll skemmtun hefur farið fram fyrir hádegi en að þessu sinni ákváðum við þó að breyta til og hafa skemmtunina eftir hádegi en það kom vegna anna hjá skemmtikröftum og þá bara hliðrum við til. Við nutum því þess að vera með börnunum í leik fyrir hádegi og fengu þau sem vildu kíkja á aðrar deildir. Þennan dag ákváðum við að sitja saman á langborði sem var fallega jólaskreytt. Börnunum var síðan þjónað til borðs af okkur kennurum og í boði var kalkúnn, kartöflur, grænar baunir og brún sósu. Á svona dögum voru ekki miklar reglur um að smakka allann mat heldur fengu þau bara á diskinn það sem þau vildu borða enda voru þau einstaklega dugleg að borða og höfðum við varla undan að skera kjötið fyrir þau. Eftir matinn fengu börnin ís áður en þau fóru í hvíldina og gaman að segja frá því að eftir að þau fengu þennan eina ís í eftirrétt að þá spyrja þau mjög oft hvort þau fái ís eftir matinn og alltaf jafn svekkt þegar svarið er nei hahaha. Eftir hvíldina horfðum við á Hvolpasveitina með íslensku tali áður en leiksýningin hófst inní sal sem hét ,,Strákurinn sem týndi jólunum" og var hún bráðskemmtileg og lífleg. Þetta var skemmtileg sýning þar sem börnin hlógu mikið og höfðu mjög gaman af. Þegar sýningunni lauk hófst svo jólaballið svo börnin röðuðu sér í kringum jólatréð og hófu söng en þá birtust tveir jólasveinar sem voru staddir í nágrenni leikskólans. Eins og þið getið rétt ímyndað ykkur að þá voru mikil fagnaðarlæti. Þeir gáfu sér góðann tíma í að syngja og dansa með okkur í kringum jólatréð. Þegar jólaballinu lauk fóru allir inn á sína deild og auðvitað við líka og gerðum okkur tilbúin að fara að leika okkur en þá birtist annar jólasveinanna inn á Berg og gaf sér smá tíma til að spjalla við börnin og gefa þeim mandarínu að gjöf. Það voru því sátt og glöð börn sem fóru heim þennan daginn.

  

Jólaverkstæðið og jólagjafir: Tveir elstu árgangarnir í Akraseli gerðu jólagjafir handa foreldrum sínum sem byggð var á þeirra eigin hugmyndum, gjöf barnanna var því afar sérstakar. Þau sögðu kennara hvað þau vildu gefa foreldrum sínum í jólagjöf og kennarinn sá um að skrá niður ferlið með orðum og myndum sem fékk svo að fylgja jólagjöfinni. Í jólagjafavinnunni var hver gjöf einstök og börnin fengu mikla einstaklingsmiðaða leiðbeiningu og aðstoð. Þau fengu mjög frjálsar hendur með efnivið og þannig fékk sköpunarkraftur og hugmyndaflug barnanna að ráða för. Jólaverkstæði var sett upp inní sal og þar mátti finna ýmis gull og gersemar sem nýttist sem efniviður í hinar ýmsu gjafir. Það var dásamlegt að fylgjast með þeim í þessari vinnu því gleðin og ímyndunaraflið tóku völdin. Gæðastundir sem þessar með hverju og einu barni gaf okkur svo ótrúlega mikið og við kennararnir vorum sammála um að það mynduðust sérstakar tengingar á milli kennara og barna við gerð jólagjafanna. Vegna óviðráðanlega aðstæðna náðist þó ekki að klára allar gjafirnar í ár fyrir 15.desember (þá var salurinn tæmdur fyrir jólaballið á rauða deginum). Þau sem áttu eftir að klára, kláruðu gjöfina sína inni á litla Bergi en fengu að sjálfsögðu svipaða upplifun og gæðastundin var svo sannarlega til staðar.

 

2019 árgangurinn gerðu fallega kertastjaka fyrir foreldra sína og höfðum við umgjörðina þannig að hún væri notaleg og að börnin fengu gæðatíma með kennara. Þau voru þrjú í einu að gera stjakana en það réðst af hagræðingu vegna undirbúnings á leirnum. En það var dásamlegt að fylgjast með þeim og hlusta á þau tala við hvort annað á meðan þau hnoðuðu og skreyttu stjakana sína. Þegar við hlustum á börnin að þá heyrum við mörg gullkorn sem gleður hjartað svo mikið en það voru einmitt þannig aðstæður sem mynduðust. Við getum alveg fullyrt það hér og nú hvað börnin ykkar eru hjartahlý og hvað þau elska foreldrana sína mikið. Þvílík lof sem þið fáið frá börnunum ykkar. Valdar voru perlur í litum sem voru uppáhaldslitir foreldra sinna og glimmerið (maður minn).... við höfðum enga stjórn á þeim þegar þau komust í það enda voru þau með svörin á reiðum höndum ,,mamma elskar glimmer."

Á milli jóla og nýárs voru ekki mörg börn í leikskólanum þannig að við sameinuðumst með Gljúfra-og Klettabörnun en töldum að það væri skemmtilegt ef þau fengu að vera einn dag á hverri deild þannig að þá voru þau flest einhverntímann á heimaslóðum og flest fengu þau þá upplifun að prófa aðra deild sem getur verið mjög spennandi.

Hægt er að skoða enn fleiri myndir af starfinu í desember HÉR