- Starfsfólk
- Viðburðir
- Klettur
- Berg
- Gljúfur
- Mýri
- Tjörn
- Lækur
- Starfið
- Sagan okkar
- Farsæld í þágu barna
- Ævintýraferðir
Lífið á Bergi er alltaf jafn fjörugt og skemmtilegt. Við höfum svolítið notað góða veðrið í útiveru eða gönguferðir og þó það hafi verið svolítið köld norðangolan að þá hefur það alls ekki stoppað okkur í vorgleðinni. Það er ekkert sem veitir börnunum meiri gleði en að fá að fara út á strigaskóm og léttum klæðnaði :)
Börnin virðast öll hafa átt mjög gott páskafrí og var gaman að fá þau aftur í leikskólann eftir fríið.
Við fengum góðar heimsóknir í leikskólann en föstudaginn 14. apríl kom Hafdís Huld söngkona og söng fyrir börnin í sal leikskólans. Hún náði einstaklega vel til barnanna og úr var notaleg söngstund með henni og börnunum. Sama dag fengum við kór Grundaskóla ásamt Valgerði Jónsdóttur til okkar og þau sungu fyrir börnin úti í garð. Börnin komu sér vel fyrir í skeifunni og hlustuðu á kórinn syngja. Síðan vorum við svo heppinn að fá einn lítinn unga í heimsókn til okkar en Esjar Atli veitti okkur þá ánægju og sýndi okkur einn af ungunum sem hann var að eignast.
Vorstörfin halda áfram og papríkufræin sem við settum í eggjabakkann hafa heldur betur vaxið og fengum hvert og eitt barn papríku plöntu úr bakkanum og umpottuðu því í pott sem þau höfðu skreytt sjálf.
Í apríl héldum við áfram með skipulagt starf ásamt frjálsum leik inni á deild. Börnin eru orðin mjög dugleg að leika og detta oft í mjög gott flæði í leiknum.
Sköpun:
Músahópur: Þau fóru í pappírsgerð og gerðu fallegan pappa úr gömlum blöðum sem búið var að tæta niður ásamt eggjabakka. Þarna tengdum við umhverfismennt og endurnýtinguna inn sköpunarstarfið hjá okkur.
Fílahópur: Fóru í samvinnuverkefni að búa til myndlistarverk og tóku öll 2018 börnin þátt í því verkefni. Þetta verk hangir á ganginum ásamt útskýringu á verkefninu. Þetta verk tengdum við þremur greinum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. En við reynum að tengja alla okkar vinnu inn á barnasáttmálann.
Umhverfismennt:
Við erum alltaf dugleg að vinna með umhverfsmenntina. Í apríl voru vikur þar sem við vigtuðum það sem ekki var klárað í hádegismatnum til að verða meðvitaðri um matarsóunina í leikskólanum. En við tökum á hverju ári fjórar til sex vikur þar sem matarafgangar eru vigtaðir á hverjum degi. Þetta gerir okkur starfsmenn sem og börnin meðvitaðri um mikilvægi matarsóunnar. En til þess að gera þetta meira spennandi fyrir börnin að þá höfum við veitt verðlaun/viðurkenningu í hverri viku fyrir þá deild sem hendir minnsta matnum.
Í tilefni af degi umhverfisins sem var 25. apríl að þá höfum við verið extra dugleg að taka til ruslið í kringum leikskólann en auðvitað erum við alltaf dugleg að taka rusl upp úr götunni og setja það í ruslið. Börnin eru orðin svo vel vakandi fyrir náttúrunni að alltaf þegar við förum í gönguferðir að þá er týnt í poka eða haldið á ruslinu þar til við finnum ruslatunnu til að henda því í.
Verkefnið ,,Húsið mitt" með músahóp:
Núna eru börnin í músahóp farin að fara í göngutúra að húsinu sínu og þar er tekin mynd af þeim við húsið eða hurðina sína. Þeim finnst þetta mjög spennandi og gaman að heimsækja húsin þeirra með hópnum. Við verðum í þessu verkefni út maí og reynum að enda gönguferðirnar á einhverjum stað sem þau geta leikið sér.
Hægt er að skoða fleiri myndir úr starfinu á Bergi Hér